Áfengissala í lítrum talið dróst saman um 3,1% yfir tímabilið janúar-október í samanburði við árið 2010. Ef áfengi er flokkað í bjór, léttvín og sterkt áfengi þá hefur sala á bjór dregist saman um 4,3% og sterkt áfengi um 3,5%. Hins vegar hefur sala á léttvíni aukist á milli ára um 2,3%.
Salan í október er 11,8% minni en í október í fyrra, að því er fram kemur á vef Vínbúðarinnar.
Bent er á að flestir viðskiptavinir komi í Vínbúðirnar á föstudögum og laugardögum og í samanburði á milli ára þurfi alltaf að hafa í huga skiptingu þessara vikudaga á milli mánaða. Ef september og október séu teknir saman sést að samdrátturinn er 2,9% sem er svipað og árið í heild.