Tilkynnt var til lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum sl. þriðjudag að grunur léki á því að hrútlamb, sem stolið hefði verið í Skorradal fyrr í haust, væri að finna í girðingu rétt utan við Akranes.
Lambið væri blóðugt um haus og héldi sig frá öðru fé í girðingunni. Fór lögreglan á staðinn og kom þá í ljós að nýlega var búið að endurmarka lambið. Fróðir menn töldu sig þekkja gamla markið þar undir sem tilheyrði réttum eiganda, segir í frétt á vef Skessuhorns.
Tómstundabóndinn sem sagður var eiga féð í girðingunni gat aðspurður ekki gefið haldbærar skýringar á tilkomu endurmarkaða lambsins. Talið er harla ólíklegt að lambið hafi verið tekið í misgripum en málið er til frekari rannsóknar hjá lögreglu.