Enginn árangur hefur enn sem komið er náðst í viðræðum ríkisins, sveitarfélaga og samtaka á vinnumarkaði um hvernig staðið verður að framlengingu á næsta ári á tímabundinni heimild til atvinnuleysisbóta í fjögur ár skv. heimildum innan ASÍ.
ASÍ hefur hafnað algerlega útfærslu fjárlagafrumvarpsins um að eftir að þriggja ára samfelldu bótatímabili lýkur falli bætur niður í 3 mánuði. ASÍ krefst þess að bráðabirgðaákvæði um fjórða árið verði framlengt.
Forsvarsmenn sveitarfélaga gagnrýna þetta líka þar sem fyrirséð er að stór hópur atvinnulauss fólks sem missir bæturnar þurfa að leita eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Talið er að sá hópur muni verða 800-1.000 manns.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að þetta þriggja mánaða skerðingartímabil eigi að spara tæplega 800 millj. kr. útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári. Finna þurfi aðrar leiðir til að afla fjár upp í þetta gat ef fallið verður frá þessum áformum í fjárlagafrumvarpinu.