Tólf þingmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins hafa lagt fram frumvarp til laga um miðstöð innanlandsflugs. Markmið frumvarpsins er að treysta í sessi staðsetningu Reykjavíkurflugvallar í ljósi verulegrar þýðingar hans fyrir samgönguöryggi og stöðu og framgang innanlandsflugs, líkt og segir í greinargerð með frumvarpinu.
Þá er markmiðið að tryggja tilvist miðstöðvar innanlandsflugs í næsta nágrenni við helstu heilbrigðis-, mennta- og stjórnsýslustofnanir landsins.
Í greinargerðinni segir að brýnt sé að marka stefnu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Sú óvissa sem ríki um framtíð flugvallarins komi sér illa fyrir hagsmunaaðila og brýnt sé að henni verði eytt svo fljótt sem verða megi.