Neytendastofa hefur sektað Skakkaturn ehf., sem er rekstraraðili Epli.is, um 1,5 milljónir kr. fyrir að hafa birt í sjónvarpsauglýsingum fullyrðinguna „Engir vírusar“. Neytendastofa segir brotið alvarlegt og að einbeittur vilji virðist vera til að blekkja neytendur.
Neytenda stofa segir að Skakkiturn hafi í október 2011 birt í sjónvarpsauglýsingum fullyrðinguna „Engir vírusar“. Þá segir að með ákvörðun Neytendastofu frá 3. desember 2010 hafi verið tekin ákvörðun um að auglýsingar með fullyrðingunni „Engir vírusar“ væru brot á lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Var þeim tilmælum beint til Skakkaturns að hætta að auglýsa með framangreindum hætti.
Ákvörðun Neytendastofu hefur verið staðfest af áfrýjunarnefnd neytendamála.
Neytendastofu bárust ábendingar í tilefni sjónvarpsauglýsinga Skakkaturns, sem er umboðs- og söluaðili Apple tölva á Íslandi. Í auglýsingunum sem birtar eru í nafni Eplis.is, koma fram nokkrir þekktir Íslendingar og það fullyrt að engir vírusar séu í tölvunum.
Umræddar auglýsingar hafa birst í októbermánuði 2011, í dagskrá Ríkisútvarpsins og Stöðvar 2.
Segir að í málinu liggi fyrir að Skakkiturn hafi með birtingu auglýsinganna virt að vettugi ákvörðun Neytendastofu frá 3. desember 2010 sem og úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála frá 10. febrúar 2011. Er því að mati Neytendastofu óhjákvæmilegt að leggja stjórnvaldssekt á fyrirtækið.
Að teknu tilliti til þess að um ítrekað brot hafi verið að ræða og að einbeittur vilji virðist vera til að blekkja neytendur um kosti þeirrar vöru sem fyrirtækið selji sem og alvarleika brotsins, sé það mat stofnunarinnar að hæfilegt sé að leggja á Skakkaturn stjórnvaldssekt að fjárhæð 1.500.000 kr. vegna brots gegn ákvörðun Neytendastofu dags. 3. desember 2010.