Fréttaskýring: Fengi sama dóm með hveiti í fórum sínum

Kókaín
Kókaín AP

Sérstakur dómur var kveðinn upp í Hæstarétti á fimmtudag. Ekki fyrir þær sakir að hann sé umdeildur eða hafi fordæmisgildi heldur frekar vegna þess að þá hlaut 25 ára karlmaður fimmtán mánaða dóm fyrir að flytja til landsins efni sem ekki var ólöglegt að flytja inn á þeim tíma. Raunar hefði engu breytt þótt maðurinn hefði verið með hveiti í fórum sínum, fimmtán mánaða dóm hefði hann fengið. Meintur samverkamaður hans, sá sem fékk hann til að fara með efnið til landsins, stendur hins vegar uppi sem sigurvegari; saklaus.

Vart er hægt að vorkenna manninum þó dæmdur sé. Efnið sem hann flutti vísvitandi til landsins var 4-flúoróamfetamín og 3,7 kíló af því. Um er að ræða efni náskylt amfetamíni og með svipaða virkni. Ef litið er til dómafordæma fyrir innflutning á amfetamíni hefði hann því verðskuldað þyngri dóm. Þannig er hins vegar að umrætt efni var ekki að finna í reglugerð um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni þegar hann reyndi innflutning. Það er þar í dag.

Ónothæf tilraun til smygls

Maðurinn var handtekinn við komuna til landsins 15. desember 2009 en hann kom frá Berlín. Tollverðir fundu efnið og við skýrslutöku hjá lögreglu daginn eftir upplýsti maðurinn, að félagi hans, samverkamaðurinn, hefði beðið hann að fara til Amsterdam og sækja þangað um eitt kíló af kókaíni og flytja til landsins. Þá þegar var brot mannsins framið, og það þó svo hann hefði eiginlega ekki brotið af sér.

Um er að ræða svokallað „pútatívt“ brot eða ónothæfa tilraun. Maðurinn stóð í þeirri meiningu að hann væri að flytja inn ólögleg vímuefni og játaði það frá upphafi. Hann var því dæmdur fyrir tilraun til að flytja inn þau vímuefni. Meintur samverkamaður hans neitaði hins vegar alfarið sök, var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur og máli hans ekki áfrýjað.

Raunar voru mennirnir báðir sýknaðir í héraðsdómi. Sveinn Andri Sveinsson, verjandi mannsins sem flutti efnið inn, segir að sýknan í héraði hafi verið byggð á því að í ákæru var ekki gerð krafa um að hann yrði sakfelldur fyrir tilraunabrot. Auk þess hafi sækjandi í málinu ekki tekið tillit til þess. „Að öllu þessu virtu, og í ljósi þess að það er grundvallarregla að allan vafa beri að skýra ákærða í hag, verður ákærði [...] ekki sakfelldur fyrir tilraunabrot,“ sagði í niðurstöðu dómsins.

Ákæruvaldið áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og flutti það fyrir réttinum á þeirri forsendu að um tilraunabrot væri að ræða. Rétturinn féllst á kröfu sækjanda og sakfelldi manninn.

Ekki algeng dómsmál

Ef við víkjum aftur að hveitinu, þá hefði eins og áður segir ekki skipt máli hvort maðurinn hefði reynt að flytja inn hveiti vegna þess að hann játaði í upphafi að hafa reynt að flytja inn kókaín. Hins vegar má snúa þessu við og segja, að ef maðurinn hefði frá upphafi haldið því fram að umrætt efni væri hveiti sem hann ákvað að fela í ferðatösku sinni þá væri hann frjáls maður í dag.

Sveinn Andri segir að mál sem þessi séu vissulega ekki algeng en komi þó upp. Oftar er þó um að ræða, að menn séu að flytja inn íblöndunarefni þegar þeir telja sig vera með fíkniefni. Hafi þá jafnvel verið blekktir sjálfir af fíkniefnasölum ytra.

Af þessu máli hljóta þó innflytjendur fíkniefna að ráða, að illt getur verið að játa strax. Þó það sé að sjálfsögðu betra fyrir samfélagið.

Ásetningur nægir til

Brot mannsins umrædda varðaði við 173. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 20. gr. sömu laga.

Í fyrri greininni segir að hver sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni láti mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendi þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt skuli sæta fangelsi allt að 12 árum.

Sú síðari er hins vegar á þá leið, að hver sá sem tekið hefur ákvörðun um að vinna verk sem refsing er lögð við í lögum og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki hafi þegar brotið er ekki fullkomnað gerst sekur um tilraun til þess. Fyrir tilraun til brots má svo dæma minni refsingu en mælt er fyrir um fullframin brot.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert