Ómakleg umræða hefur verið í fjölmiðlum undanfarið vegna hreindýra sem hafa flækst og fest sig í girðingum síðustu vikur í landi Flateyjar á Mýrum. Bændum er kennt um og þeir sagðir upp til hópa vera dýraníðingar. Þetta segir í pistli frá Grétari Má Þorkelssyni, hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, á vef Ríkis Vatnajökuls.
Í pistlinum segir Grétar að umhverfisverndarsamtök hafi farið mikinn í umræðunni og lagt málið einhliða upp í fjölmiðlum. Þá gagnrýnir hann talsmann Umhverfisstofnunar fyrir að hafa sagt, um tvo hreintarfa sem voru fastir saman á hornunum, að ekkert yrði aðhafst á meðan þeir hefðu eðlilega hreyfigetu, þeir færu bráðum að missa hornin og myndu þá losna. „Ég get ekki ímyndað mér að það geti talist eðlileg hreyfigeta að vera fastur með hausinn við einhvern annan í viku eða tvær, það þarf allavega að vera gott samkomulag milli beggja aðila. Hvað með dýraverndarsjónarmið?“
Grétar tekur álftina sem dæmi. „[Hún] er algerlega friðuð og hefur tjón bænda verið gríðarlegt síðustu ár vegna skemmda af þeirra völdum á kornökrum og túnum og má ekki með nokkrum hætti verjast þessum vágesti með fækkun. Á hverju ári drepast hundruð álfta þegar þær fljúga á rafmagnslínur, ætti þá ekki að skikka Rarik eða Orkustofnun til að grafa allar línur í jörð?“
Hann segir að Umhverfisstofnun ætti að beita sér fyrir því að lögum yrði breytt þannig að handsama mætti dýr sem flækjast í girðingum og krefjast aukinna fjárframlaga frá ríkinu til að standa straum af þeim kostnaði. „Björgunarsveitir hafa verið að aðstoða hreindýraeftirlitsmenn á svæðinu við að losa dýrin oftar en einu sinni og fá þær ekkert greitt fyrir það. Ábyrgðin að mínu mati liggur að stórum hluta hjá Umhverfisstofnun.“
Grétar segir að bændur í Flatey og þeir sem nýta félagsræktina hafi á hverju vori lagað girðingarkafla þar sem mesta álagið er. Hann hafi framkvæmt úttekt á tjóni á girðingum og ræktarlandi í Flatey sem rekja má beint til hreindýra. „Kostnaður bóndans sem nytjar félagsræktina er 1.609.146 kr. vegna girðinga og 1.679.250 kr. Alls kr. 3.288.396 á einungis 4–5 árum og er þetta varlega útreiknað.“ Tjónið á ræktarlandinu með girðingarkostnaði hjá Flateyjarbændum hafi bara í sumar aftur á móti numið tæpum 8,5 milljónum kr.
Pistil Grétars má lesa í heild sinni hér.