Kirkjuráð gerir ekki athugasemdir við að Þorláksbúðarfélagið ljúki við byggingu Þorláksbúðar í Skálholti. Málið hefur verið mjög umdeilt og byggingunni mótmælt. Fyrir liggur að byggingarleyfi verði gefið út og er félaginu því ekkert að vanbúnaði að ljúka verkinu.
Á fundi kirkjuráðs þann 2. nóvember sl. var eftirfarandi bókun gerð um Þorláksbúð: „Samkvæmt bókun kirkjuráðs frá 21. september 2011 var málið kannað, en fyrir liggur af hálfu skipulags- og byggingaryfirvalda Bláskógabyggðar að byggingarleyfi verði gefið út. Í ljósi þeirrar könnunar gerir kirkjuráð ekki athugasemdir við að Þorláksbúðarfélagið ljúki framkvæmd verksins. Biskup sat hjá við afgreiðslu málsins.“
Að sögn Guðmundar Þórs Guðmundssonar, framkvæmdastjóra kirkjuráðs, er næsta skref því væntanlega að Þorláksbúðarfélagið, þar sem Árni Johnsen er í forsvari, muni ljúka verkinu og reisa húsið. „Ég held að það taki mjög skamman tíma að reisa húsið því það er nokkurn veginn tilbúið,“ segir hann. „Það er komið framkvæmdaleyfi og félaginu er því ekkert að vanbúnaði að ljúka verkinu.“