Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segist vonast til þess að flestir skilji að nú er komið að þeim mörkum sem spítalinn ræður við í niðurskurði, frekari niðurskurður mun skerða þjónustu. Þetta kemur fram í föstudagspistli forstjórans á vef Landspítalans.
„Áfram er unnið af fullum krafti að útfærslu fjárhagsáætlunar næsta árs og undirbúningi þeirra breytinga og niðurskurðar sem spítalinn er settur í á því ári. Mikið hefur verið rætt um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu síðustu vikur, bæði í fjölmiðlum og hjá stjórnmálaflokkum. Vona ég að flestir skilji að nú er komið að þeim mörkum sem spítalinn ræður við í niðurskurði, frekari niðurskurður mun skerða þjónustu. Við verðum öll saman að vinna að því að gera þetta á eins öruggan hátt og hægt er við þessar erfiðu aðstæður. Það er ljóst að starfsfólk hefur unnið frábært starf fyrir minna fé á síðustu árum og þannig í raun aukið framleiðni spítalans á krepputímum. Það er ekki sjálfgefið að slíkt geti gengið til lengri tíma.
Við höfum nýlega gert svokallaða útkomuspá fyrir árið (2011) og samkvæmt henni ættum við að ná að vera innan ramma fjárlaga annað árið í röð. Við verðum þó áfram að vera á tánum og reyna að passa upp á hverja krónu og muna að fjármál spítalans eru á ábyrgð okkar allra," skrifar Björn.