Vestmannaeyjaferjan Herjólfur er að sigla inn til Landeyjahafnar. Brottför frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja verður kl 20 í kvöld, en ekki verða sigldar fleiri ferðir í dag.
Tilkynnt var í gær að vegna óhagstæðrar ölduspár fyrir Landeyjahöfn næstu daga myndi Herjólfur sigla til Þorlákshafnar um helgina. Þetta hefur hins vegar breyst og segir í tilkynningu frá Eimskip, sem annast rekstur Herjólfs, að þetta sé í samræmi við áður útgefna vinnureglu að sigla eins og oft og mögulegt er til Landeyjahafnar þó stundum þurfi að tilkynna það með stuttum fyrirvara.
„Við biðjum farþega okkar afsökunar á þessari breytingu en vonum að skilningur og ánægja sé með hana. Farþegar eru vinsamlega beðnir að fylgjast með fréttum á herjolfur.is, facebook síðu herjófs og síðu 415 í Textavarpi," segir jafnframt í tilkynningu frá Eimskip.