Góður 3-1 sigur vannst á Lúxemborg í 3. umferð EM landsliða í skák sem fram fór í Porto Carras í dag. Hjörvar Steinn Grétarsson, Bragi Þorfinnsson og Helgi Ólafsson unnu en Björn Þorfinnsson tapaði. Henrik Danielsen hvíldi.
Hjörvar, sem er aðeins 18 ára, tefldi á fyrsta borði og er sá yngsti í sögunni sem leitt hefur íslenskt skáklandslið. Þetta er svo í fyrsta skipti síðan í Tórínó 2006 að Helgi teflir með íslenska landsliðinu í skák en Helgi er jafnframt liðsstjóri liðsins.
Íslenska sveitin hefur 2 stig og 5,5 vinning og er í 28. sæti. Á morgun teflum mætum við Svartfellingum sem eru áþekkir íslensku sveitinni að styrkleika.
Aserar eru efstir, Spánverjar, sem rétt mörðu Íslendinga í fyrstu umferð eru aðrir og Úkraínumenn eru þriðju. Danir eru efstir Norðurlandanna í 20. sæti eftir stórsigur, 3,5-0,5, á Norðmönnum. Rússar eru efstir í kvennaflokki.