Skipulagður þjófnaður hefur aukist hér á landi, að sögn Aðalsteins Aðalsteinssonar, rannsóknarlögreglumanns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Verið er að rannsaka hvort alþjóðleg glæpastarfsemi tengist þessum kerfisbundnu þjófnuðum eins og í tilviki kvennanna sem voru handteknar nýlega grunaðar um stórfelldan þjófnað úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu.
Aðalsteinn tekur fram að rannsóknin sé á frumstigi en hann telur að verið sé að stela það miklu og á það kerfisbundinn og skipulagðan hátt, að það sé af og frá að menn séu að stela fyrir innanlandsmarkað. Hann segir búðaþjófa bíræfnari en áður, þeir steli sífellt dýrari varningi.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir 80-90% búðaþjófa af erlendu bergi brotin. „Af hverju er ekki tekið jafn föstum tökum á svona skipulagðri glæpastarfsemi og á Vítisenglum?“ spyr Andrés.