Landhelgisgæslunni barst klukkan rúmlega þrjú í nótt aðstoðarbeiðni frá Birni Lóðs, dráttarbátnum á Höfn í Hornafirði vegna flutningaskipsins Alma, en stýri þess virkaði ekki þegar verið var að aðstoða skipið út fyrir ós í Hornafirði.
Lóðsinn náði að taka skipið í tog og óskaði samstundis eftir allri aðstoð vegna aðgerðarinnar. Skrúfa og vél skipsins voru í lagi en skrúfublaðið reyndist dottið af.
Um kl. 06:00 var komin dráttartaug komin milli Ölmu og Hoffells og var þá hættuástandi aflýst. Björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Vetti, lóðsinum á Reyðarfirði var því snúið til hafnar. Þyrla Landhelgisgæslunnar verður á Höfn í Hornafirði og til aðstoðar ef á þarf að halda.
Flutningaskipið verður dregið Austur fyrir Stokksnes vegna SV áttar á svæðinu og síðan í var á Berufirði eða Reyðarfirði. Á svæðinu er nú SA 10-15 m/sek en á að snúast í SV hvassviðri, 15-20 m/sek.
Landhelgisgæslan hafði samband við Ingibjörgu, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Hornafirði og togskipið Hoffell sem staðsett var um 6 sjómílur suðaustur af Höfn. Einnig var haft samband við höfnina á Reyðarfirði til að fá dráttarbátinn Vött á staðinn og var Lóðsinn, dráttarbáturinn í Vestmannaeyjum, settur í viðbragðsstöðu. Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á vettvang og varðskipið Þór var sett í viðbragðsstöðu.
Alma er um 100 m langt skip og skráð á Kýpur, en það hefur að undanförnu haft viðkomu í Vestmannaeyjum og á Hornafirði.