Varðskipið Þór lagði af stað úr höfn um klukkan 14:30 en áætlað er að siglingin austur að Stokksnesi, þar sem flutningaskipið Alma rekur stjórnlaust, taki 15-16 klukkustundir. Snarvitlaust veður er fyrir utan Suðausturland og því alls óvíst hvort sú áætlun stenst.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni hefur ekki enn tekist að festa dráttartaug á ný í Ölmu en hún slitnaði á milli Hoffells, sem tók flutningaskipið í tog í morgun, um ellefuleytið í dag.
Landhelgisgæslunni barst klukkan rúmlega þrjú í nótt aðstoðarbeiðni frá Birni Lóðs, dráttarbátnum á Höfn í Hornafirði vegna Ölmu, en stýri þess virkaði ekki þegar verið var að aðstoða skipið út fyrir ós í Hornafirði. Var stýrisblað farið, en skrúfa og vél skipsins voru í lagi.Þyrla Landhelgisgæslunnar er í viðbragðsstöðu á Höfn í Hornafirði sem og björgunarsveitir og lóðsinn.
Túlkur á vegum Alþjóðahússins aðstoðar starfsfólk Landhelgisgæslunnar í samskiptum við skipstjóra Ölmu en sökum tungumálaörðugleika gengu samskiptin brösuglega í morgun.
Alma er um 100 m langt skip og skráð á Kýpur, en það hefur að undanförnu haft viðkomu í Vestmannaeyjum og á Hornafirði.