Eineltismál eru þó flókin viðureignar og því miður næst ekki alltaf samstaða með skólastjórnendum og foreldrum um leiðir til að vinna úr þeim. Þetta segir í yfirlýsingu frá SAMFOK, sem eru samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík.
„Einelti er grafalvarlegt samfélagsmein og ofbeldi sem ekki á að líðast. Þegar eineltismál koma upp er nauðsynlegt að brugðist sé við þeim eins fljótt og auðið er á þeim vettvangi sem til þeirra er stofnað. Sem betur fer tekst þetta oft með miklum ágætum með hjálp góðra kennara, skólastjórnenda, nemenda, foreldra og skólasamfélagsins í heild.“
„Foreldrar þolenda eineltis upplifa sig stundum mjög einangraða í viðleitni sinni við að fá úrlausn fyrir börn sín og aðgerðir skólayfirvalda máttlitlar. Eineltismál verða ekki leyst með þöggun og/eða aðgerðaleysi. Þau verða heldur ekki leyst með yfirlýsingum í fjölmiðlum,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.
„Einelti er ekki einkamál geranda og þolanda. Það gegnsýrir allt skólastarfið. Starfsmenn skóla eru vissulega bundnir trúnaði um málefni nemenda. Trúnaðurinn má samt ekki verða til þess að hindra úrlausn eineltismála. Þegar alvarleg eineltismál koma upp verða skólar að upplýsa foreldra um þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til. Aðeins þannig getur foreldrahópurinn, í samvinnu við skólann, lagst á eitt við að útrýma vandanum.“
Í yfirlýsingunni segir að allir grunnskólar eigi að hafa eineltisáætlanir og að þeim sé ætlað að vinna eftir þeim. „Fagurlega orðaðar eineltisáætlanir geta gefið foreldrum falskt öryggi því þær eru aðeins orð á blaði þar til þeim er hrint í framkvæmd – og viðhaldið. Skólaráðum skólanna er ætlað að fylgjast með að það sé gert með fullnægjandi
hætti. Ef skólar eru ekki að sinna þessu hlutverki sínu ber að tilkynna það til skólanefnda sveitarfélaga og/eða mennta- og menningamálaráðuneytis.“