„Þetta var mjög ánægjulegur fundur með landsfundarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins og hann gekk afar vel," segir Hanna Birna Kristjánsdóttir um fund sem hún átti með flokksmönnum sínum á Vestfjörðum í gær. Fundurinn var haldinn á Ísafirði og sá fyrsti í fundarferð Hönnu Birnu í kringum landið þar sem hún ræðir við flokksmenn í kjölfar framboðs síns til formanns Sjálfstæðisflokksins.
„Við vorum að ræða fundinn fram undan, flokkinn og framtíðina. Ég finn fyrir miklum stuðningi og ánægju með að fólk hafi val, og mér finnst það leggjast vel í flokksmenn út um allt land," segir Hanna Birna.
Hanna Birna mun funda á fleiri stöðum á næstu dögum.
Er ekki í sérframboði innan flokksins
Tryggvi Þór Herbertsson, flokksfélagi Hönnu Birnu, sagðist í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun ekki sjá tilgang með framboði Hönnu Birnu þar sem hún kæmi ekki fram með nýjar áherslur. Heldur tæki hún áherslur Bjarna Benediktssonar og gerði þær að sínum. Spurð út í þessi ummæli Tryggva Þórs tekur Hanna Birna fram að hún sé ekki í sérframboði innan Sjálfstæðisflokksins.
„Tilgangur framboðs míns er sá einn að styrkja Sjálfstæðisflokkinn. Hvað varðar málefnaáherslur hef ég áður sagt að ég er í sama flokki og Bjarni Benediktsson og þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Ég lít svo á að okkar hugmyndir eigi samleið og okkar lífsskoðanir séu þær sömu. Við erum að fara sameiginlega inn á landsfund þar sem við mótum okkar áherslur til framtíðar og ég lít svo á að allar tillögur sem eru innan Sjálfstæðisflokksins hljóti að vera tillögur allra sjálfstæðismanna," segir Hanna Birna.