„Það sem ég vil gera er að endurvekja grunngildi,“ segir Lilja Mósesdóttir í Silfri Egils í dag um fyrirhugaðan stjórnmálaflokk sem hún hyggst stofna. „Gildi Alþýðuflokksins um jöfnuð og réttlæti, ég vil taka upp gildi Sjálfstæðisflokksins um réttlæti þannig að ef einhver verður fyrir áfalli, þá aðstoðum við. Og grunngildi Framsóknarflokksins um valddreifingu, líka hvað varðar eignarhald í atvinnulífinu.“
„Ég vil líka taka hugtak Vinstri grænna um sjálfbærni og leggja áherslu á að endurmóta efnahagslífið á grundvelli sjálfbærni,“ sagði Lilja.
„Margt af því sem var við lýði hér áður fyrr er gott og gilt og á að halda á lofti,“ sagði Lilja.
„Skoðanakannanir sýna að traust almenning á Alþingi fer þverrandi. Allir flokkar hafa sporðrennt nýfrjálshyggjunni og gefið gildi sín upp á bátinn.“
Lilja sagði að hugtök eins og vinstri og hægri í stjórnmálum væru orðin merkingarlaus. Að auki hefði hugtakið norrænt velferðarkerfi misst gildi sitt. „Skilningurinn sem við höfum heyrt á þessum hugtökum hefur breyst og hann er annar en hann var fyrir kreppu.“
Lilja þvertók fyrir að ætla að stofna flokk sem snerist eingöngu um eitt málefni, eins og til dæmis skuldamálin. „Vandi nýrra framboða er að þau hafa verið kennd við eitthvað eitt mál.“
„Það er eftirspurn eftir flokki sem stendur við stefnuna og kosningaloforði. Kjósendur hrópa eftir heiðarleika og mér finnst mikilvægt að flokkar segi fyrir kosninga með hverjum þeir hyggjast starfa.“
Hún sagðist hafa fundið fyrir stuðningi víða að úr öllum áttum. „Það takmarkast ekki við vinstrifólk, þetta er fólk úr öllum áttum, “sagði Lilja. „Það er von mín að við fáum það mikið fylgi að hrunflokkarnir verði ekki áfram stærstir á þingi.“