80 milljóna sekt vegna verðsamráðs

Gögn málsins sýna m.a. að af samráði fyrirtækjanna og Bónus …
Gögn málsins sýna m.a. að af samráði fyrirtækjanna og Bónus leiddi að neytendur voru blekktir í tengslum við forverðmerkingar á kjötvörum. mbl.is/Golli

Samkeppniseftirlitið hefur sektað móðurfélag Síldar og fisks og Matfugls, Langasjó ehf., um áttatíu milljónir króna fyrir ólöglegt verðsamráð.

 Forsaga málsins er sú að Samkeppniseftirlitið birti í desember 2010 ákvörðun þar sem greint er frá brotum, annars vegar verslana Bónuss, og hins vegar Sláturfélags Suðurlands, Reykjagarðs, Kjötafurðastöðvar Kaupfélags Skagfirðinga, Norðlenska, Kjarnafæðis og Kjötbankans gegn 10. gr. samkeppnislaga með samkeppnishamlandi samvinnu um verð.

Þetta gerðu fyrirtækin með tvíhliða samningum eða samstilltum aðgerðum í tengslum við smásöluverðlagningu á kjöti og unnum kjötvörum sem kjötvinnslurnar höfðu verðmerkt fyrir Bónus. Þessi fyrirtæki óskuðu eftir því að ljúka málinu með sátt við Samkeppniseftirlitið.

Á þeim grundvelli nýtti Samkeppniseftirlitið sér heimild samkeppnislaga og gerði sátt við hvert þeirra. Í sáttunum fólst m.a. að fyrirtækin viðurkenndu brot á samkeppnislögum og greiddu samtals 405 mkr. í sekt vegna þeirra.

Síld og fiskur og Matfugl óskuðu eftir sáttarviðræðum við Samkeppniseftirlitið en þær viðræður skiluðu ekki niðurstöðu. Þurfti Samkeppniseftirlitið því að taka afstöðu til aðgerða fyrirtækjanna í sérstakri ákvörðun og er það gert í ákvörðun sem birt er í dag.

Ákvæði samkeppnislaga banna framleiðendum og smásölum að hafa með sér samráð um endursöluverð (lóðrétt verðsamráð).

Höfðu nána samvinnu um smásöluverð Bónuss og afslætti frá því

Í málinu fór fram umfangsmikil athugun á m.a. tölvupóstssamskiptum Síldar og fisks og Matfugls við Bónus. Þessi gögn sýna að annars vegar Síld og fiskur og Matfugl og hins vegar Bónus höfðu nána samvinnu um smásöluverð Bónuss og afslætti frá því.

Fólst í þessu mun meiri samvinna heldur en einföld samskipti um verðmerkingar á kjöti og unnum kjötvörum. Voru þessi brot Síldar og fisks og Matfugls til þess fallin að valda almenningi samkeppnislegu tjóni.

Blekktu neytendur

Gögn málsins sýna m.a. að af samráði þessu leiddi að neytendur voru blekktir í tengslum við forverðmerkingar á kjötvörum. Haft var samráð um hvert hið „merkta verð“ ætti að vera og hversu mikinn afslátt ætti að gefa frá því verði, allt frá 10% og upp í 40% afslátt. Hins vegar er ljóst að hið merkta smásöluverð stóð neytendum aldrei til boða og var því í raun ekki um raunverulega verðlækkun að ræða.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert