Byrjað er að hvessa verulega á vestanverðu landinu en reiknað er með 20-25 metrum á sekúndu um mestallt land til morguns. Gera má ráð fyrir vindhviðum undir Hafnarfjalli allt að 40-45 m/s. og víða á norðanverðum Snæfellsnesi þar til í fyrramálið að það tekur að lægja, samkvæmt upplýsingum frá veðureftirliti Vegagerðarinnar.
Eins má reikna með snörpum hviðum við Hnífsdal og Arnardal á Súðavíkurvegi frá því um kl. 19 til 20. Eins á Siglufjarðavegi frá sama tíma m.a. í Fljótum og við Sauðanesvita.
Vegir eru auðir á Suður- og Suðausturlandi. Á Vesturlandi eru hálkublettir á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Svínadal og Laxárdalsheiði. Á Vestfjörðum er víða nokkur hálka eða hálkublettir. Éljagangur og snjóþekja er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Snjór og snjókoma er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði. Hálka eða hálkublettir eru á nokkrum vegum á Norðurlandi, einkum fjallvegum. Á Austurlandi er hálka á Möðrudalsöræfum en vegir annars greiðfærir.