Fjármálaráðuneytið telur að nýir útreikningar stjórnar Vaðlaheiðarganga hf. á forsendum Vaðlaheiðarganga standist og að framkvæmdin verði sjálfbær. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra situr fyrir svörum á opnum fundi umhverfis- og samgöngunefndar um Vaðlaheiðargöng.
„Við teljum að þessar forsendur séu eins traustar og getur verið,“ sagði Steingrímur. Tók hann fram að hann teldi spár um umferðaraukningu varfærnar. Þannig væri ekki tekið tillit til væntanlegra stórframkvæmda í Þingeyjarsýslu. Þá sagði hann að reynsla frá öðrum göngum sýndi aukningu.
„Af hálfu fjármálaráðuneytisins, sjáum við ekkert því til fyrirstöðu að ljúka fjármögnunarsamningi þannig að hægt sé að ganga til viðræðna við tilboðsgjafa,“ sagði ráðherra.
Sagði hann að óskað verði eftir því í væntanlegum fjáraukalögum að taka mætti tillit til niðurstöðu útboðs á framkvæmdunum. Vonandi yrði hægt að klára þetta á næstu vikum.