Fundað um Vaðlaheiðargöng

mbl.is

Umhverfis- og samgöngunefnd heldur opinn fund um Vaðlaheiðargöng í dag en fundurinn hefst kl. 10 og stendur til kl. 12.

Bein útsending verður frá fundinum í ríkissjónvarpinu, á vef Alþingis og á sjónvarpsrás Alþingis á dreifikerfum Símans og Vodafone.

Gestir fundarins verða frá innanríkisráðuneyti, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, stjórn Vaðlaheiðarganga og frá fjármálaráðuneyti.

Nýverið lauk endurútreikningum á arðsemi Vaðlaheiðarganga og þess hefur verið vænst að ákvörðun verði tekin á allra næstu dögum um hvort ráðist verður í gerð jarðganganna. Fram hefur komið í Morgunblaðinu að innan stjórnarliðsins verði þær raddir sífellt sterkari að sýna verði afdráttarlaust fram á að veggjöld muni standa undir öllum kostnaði við framkvæmdina.

Forsvarsmenn Vaðlaheiðarganga ehf. hafa afhent fjármálaráðuneytinu niðurstöður útreikninganna. Skv. upplýsingum stjórnarmanna í félaginu hafa ekki orðið verulegar breytingar frá fyrri útreikningum en þó einhverjar, sem ekki hafa fengist uppgefnar hverjar eru.

ÍAV hf. og Marti Contractors Lts. áttu lægsta boð í gerð ganganna, 8.853 milljónir, en kostnaðaráætlunin hljóðaði upp á 9,3 milljarða. Þessar upplýsingar, nýjar tölur um umferð, endurmat miðað við þróun byggingarvísitölu og vaxtakjör af framkvæmdaláni ríkisins eru lagðar til grundvallar í nýja arðsemismatinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert