„Mitt markmið er að halda sem best á hagsmunum Íslendinga í þessum efnum,“ segir Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á opnum sameiginlegum fundi atvinnuveganefndar og utanríkisnefndar á Alþingi í dag.
Fundarefnið var staða viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu er varðar samningskafla um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.
Jón sagði tollvernd, þegar kemur að landbúnaði, vera mjög mikilvægt atriði en slíkt er að hans mati hluti af fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar. „Fram hjá því verður ekki horft, einhver einhliða eftirgjöf í tollvernd er ekki liður í þeim heildarhagsmunum sem okkur ber að verja.“
Segir hann aðildarviðræður við Evrópusambandið ekki eiga að sæta flýtimeðferð og komi til samninga sé þeim náð á forsendum Íslendinga en ekki einvörðungu með hagsmuni Evrópusambandsins í huga.
„Okkur ber að standa vörð um hagsmuni Íslendinga.“