Tveir af þremur Pólverjum sem eru eftirlýstir vegna ráns í úraverslun Michelsen á Laugavegi voru handteknir í síðustu viku í smábæ í Póllandi en sleppt á ný. Þeir ganga nú lausir. Þetta kom fram í fréttum Sjónvarpsins í kvöld.
Enginn framsalssamningur er milli Íslands og Póllands. Af þeim sökum lét pólska lögreglan tvo af Pólverjunum þremur lausa.
Maðurinn sem lögreglan handtók vegna ránsins í verslun Franks Michelsens var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 10. nóvember nk. Sá kom á bíl til landsins með Norrænu og var greinilega ætlað að fara með ránsfenginn úr landi. Mennirnir þrír sem rændu verslunina komust hins vegar úr landi með flugi til Danmerkur daginn eftir ránið. Hafa þeir verið eftirlýstir og alþjóðleg handtökuskipun gefin út.
Allt eru þetta pólskir ríkisborgarar á fertugsaldri og ekki talið að þeir hafi áður komið til landsins. Notuðust þeir við þrjá stolna bíla á flótta sínum frá versluninni. Úrin sem þeir tóku, 49 að tölu, þar af 40 Rolex-úr, eru talin jafnvirði 50-70 milljóna króna.
Mennirnir heita Grzegorz Marcin Novak, 34 ára, Pawel Jerzy Podburaczynski, 36 ára, og Pawel Artur Tyminski, 33 ára.