„Evrópusambandið kann þannig að veita Íslandi tilslakanir í tengslum við aðild sem aldrei verður neitt af. Það vita allir að það er meirihluti gegn aðild á Íslandi.“
Þetta segir Inge Halstensen, fulltrúi norskra útvegsmanna í samninganefnd Norðmanna í makríldeilunni, í samtali við norska útvegsblaðið Fiskaren.
Hann telur að samninganefnd Íslands hafi notað umsókn landsins um inngöngu í Evrópusambandið til þess að reyna að ná fram betra samkomulagi en ella við sambandið í markríldeilunni. Norsk stjórnvöld verði að koma fram í deilunni sem sjálfstætt ríki og standa í fæturna gagnvart Evrópusambandinu í stað þess að hjálpa því að koma Íslandi inn í sambandið með því að gefa Íslendingum norskan fisk.
Þá segir Halstensen að svo virðist sem Íslendingar hafi einhverja tengiliði hjá utanríkisþjónustu Evrópusambandsins sem komi að samningaviðræðunum. Þannig gangi sambandið til að mynda miklu harðar fram gegn Færeyingum en Íslendingum að hans sögn.