Atli Gíslason, þingmaður, er ekki hættur á Alþingi eins og einhverjir fjölmiðlar hafa sagt frá. Varamaður hans hefur tekið sæti hans á þingi á meðan hann sinnir sérverkefni en hann segist þó ekki vera að fara í bráð. Hann ætli að hætta á þessu þingi en hafi enn ekki tekið ákvörðun um tímasetninguna.
Haft var eftir Atla eftir viðtal á Bylgjunni í morgun að hann væri hættur á Alþingi. Varamaður Atla, Arndís Soffía Sigurðardóttir úr VG, tók sæti hans þann 24. október. Sagðist Atli í viðtalinu vera að vinna að sérverkefni.
„Ég er ekki hættur. Ég sagði á Bylgjunni að ég ætlaði að hætta á kjörtímabilinu en að ég væri ekki búinn að taka ákvörðun um tímasetningu. Ég er ekki að fara í bráð,“ segir Atli í samtali við mbl.is.
Hann segir það þó rétt að hann ætli að hætta á þessu kjörtímabili sem rennur út vorið 2013 ef ekki verði boðað til kosninga fyrr. Þá ætli hann ekki að gefa kost á sér aftur til þings eftir það.
Spurður að hverju hann ætli að snúa sér segir Atli að hann hafi orðið 64 ára á þessu ári og hann eigi ennþá lögmannstofu. Hann geti snúið sér að lögmannsstörfum að nýju eða sinnt áhugamálum sínum eins og garðyrkju.
„Það væsir ekki um mig í verkefnum,“ segir Atli.