Fái aukið svigrúm vegna áfalla

Frumvarpið um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins var lagt fram á Alþingi …
Frumvarpið um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins var lagt fram á Alþingi í kvöld. mbl.is/Ómar

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) fær sama svigrúm vegna neikvæðrar tryggingafræðilegrar stöðu og almennu lífeyrissjóðirnir til að mæta áföllum skv. frumvarpi sem fjármálaráðherra hefur lagt fram. Engu að síður þarf að óbreyttu að treysta stöðu A-deildar LSR þar sem heildarstaða sjóðsins var neikvæð um 47 milljarða í lok ársins 2010.

Sú breyting var gerð á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda undir lok ársins 2008 að heimila lífeyrissjóðum tímabundið að hafa allt að 15% neikvæðan mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyris miðað við tryggingafræðilega stöðu liðins árs, en mörkin voru áður 10%. Þannig var sjóðunum gert kleift að komast hjá því að skerða lífeyrisréttindi umfram 15% vikmörk.

Fjórar leiðir komu til greina

Í frumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í gær er lagt til að kveðið verði skýrt á um að þessi vikmörk eigi einnig við um A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR).

„Fjármálaeftirlitið telur að stjórn LSR hafi ekki gripið til viðeigandi ráðstafana til að bregðast  við því að staða A-deildar LSR hefur verið neikvæð tvö ár í röð, eða um 13% þegar litið er til heildar tryggingafræðilegrar stöðu. Stjórn LSR hefur litið svo á að umrætt bráðabirgðaákvæði um rýmri vikmörk eigi við um A-deild sjóðsins eins og aðra lífeyrissjóði. Stjórnin hefur því talið sig vera innan marka laganna þegar iðgjaldaprósentan hefur verið ákveðin óbreytt síðustu árin. Fjármálaeftirlitið hefur haft aðra lagatúlkun og telur að LSR starfi samkvæmt sérlögum sem gangi framar almennu lögunum um lífeyrissjóðina þannig að ákvæði þeirra eigi ekki við,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu segir að fjórar leiðir hafi einkum komið til álita til lausnar þessa máls. Í fyrsta lagi skerðing réttinda, í öðru lagi útgáfa skuldabréfs til sjóðsins, í þriðja lagi hækkun á framlagi launagreiðenda um 4% og í fjórða lagi, sú leið sem farin var, að taka af allan vafa um það að ákvæði laganna um vikmörkin gildi einnig um A-deild LSR.

„Ljóst er þó að ákvæðið um rýmri vikmörk tryggingafræðilegrar stöðu gildir einungis til bráðabirgða og að treysta þarf stöðu A-deildar LSR að óbreyttu verði bráðabirgðaákvæðið ekki framlengt en það fellur úr gildi í lok þessa árs. Heildarstaða sjóðsins var neikvæð um 47 [milljarða] kr. í lok ársins 2010,“ segir í umsögn um frumvarpið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka