Umhverfisráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingar á náttúruverndarlögum sem hafa að markmiði að hamla gegn utanvegaakstri og efla vernd náttúrufyrirbæra.
Er meðal annars gert ráð fyrir að Landmælingar geri kortagrunn þar sem merkja á vegi og vegslóða þar sem heimilt er að aka vélknúnum ökutækjum. „Miðað er við að kortagrunnurinn verði gefinn út með formlegum hætti með staðfestingu ráðherra og að hann feli því í sér réttarheimild um það hvar leyfilegt er að aka vélknúnum ökutækjum. Upplýsingar úr kortagrunninum skulu veittar án endurgjalds og skulu Landmælingar sjá til þess að þær verði aðgengilegar,“ segir í greinargerð.
Í frumvarpinu er einnig lagt til að Umhverfisstofnun verði heimiluð gjaldtaka á móti kostnaði fyrir leyfi sem stofnunin gefur út samkvæmt lögunum. Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar segir að um væri að ræða tekjur fyrir undanþágur frá banni við akstri utan vega, tekjur fyrir leyfi til tínslu í atvinnuskyni, tekjur fyrir leyfi til framkvæmda þar sem hætta er á að spillt verði friðlýstum náttúruminjum og tekjur fyrir leyfi til töku ákveðinna tegunda steinda úr föstum jarðlögum.