Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu meta hættur með nokkuð ólíkum hætti, svo sem eldgos, óveður og fjarskipti í skýrslu um áhættumat fyrir höfuðborgarsvæðið sem unnin hefur verið. „Aðgerðaleysi er eiginlega versta niðurstaðan,“ segir Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, um áhættumatið en í því mátu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sjálf hættu í 22 áhættuflokkum.
Hvert sveitarfélag setti saman verkefnishóp sem skilgreindi og lagði mat á hættur þess. Alls meta sveitarfélögin 66 hættuatvik en á mjög mismunandi hátt og einungis einn áhættuþáttur, hækkun sjávarstöðu, var metinn í öllum sveitarfélögunum.
Þegar niðurstöður sveitarfélaganna eru skoðaðar kemur í ljós að þau hafa metið með mjög ólíkum hætti nokkrar hættur, meðal annars hættu á inflúensufaraldri og eldsvoðum eða sprengingum á bensínstöðvum, þótt sömu aðilar reki olíudreifingarstöðvar á öllu höfuðborgarsvæðinu og mætti því álykta að verklag og uppsetning á bensínstöðvum væri svipað alls staðar.
Þá er athyglisvert er að skoða hvernig sveitarfélögin líta á fjöldasýkingar og farsóttir. Garðabær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Reykjavík setja heimsfaraldur inflúensu í efsta hættustig en Álftanes og Kópavogur annaðhvort skoðuðu ekki hættuna eða telja hana ekki eiga við sveitarfélagið. Seltjarnarnes setti heimsfaraldur inflúensu á lægra hættustig.
Kópavogur, Álftanes og Seltjarnarnes telja einnig enga hættu - eða skoðuðu ekki hættuna - á matareitrun í skólum á meðan Garðabær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Reykjavík meta afleiðingar slíkrar hættu töluverðar.
Þá nefna öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ákveðna hættu af aðflugi á flugvelli, þ.e. Reykjavíkurflugvelli. Eitt sker sig þó úr, Kópavogur sem telur enga hættu stafa af aðflugi að flugvellinum eða sveitarfélagið skoðaði þá hættu ekki sérstaklega.
Og á meðan Garðabær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Reykjavík telja töluverða áhættu felast í gasgeymslu á bensínstöðvum telur Kópavogsbær enga hættu stafa af slíku. Raunar ekki Álftanes heldur en þar ber að líta til þess að á Álftanesi er ekki bensínstöð.
Af þessum dæmum má sjá að áhættumatið er um margt ófullkomið. Jón Viðar segir enda að það verði endurskoðað strax innan árs, og í næsta mati verði þá eflaust meiri samræmingu að finna í matinu.
„Við tókum strax þá afstöðu að við ætluðum ekki að ákveða hvaða skoðun sveitarfélögin hefðu á hlutunum heldur að þau skoðuðu öll sömu þætti. Ef eitt þeirra telur að klórslys í sundlaugum sé í efsta hættustigi þá er það bara í góðu lagi. Svo verður þetta skoðað sameiginlega seinna,“ segir Jón Viðar og dregur alls ekki úr mikilvægi áhættumatsins, segir það fyrsta skrefið á langri leið sem muni nýtast mjög vel til framtíðar. Mikilvægt sé að samræma áhættumat þegar litið er til svæðisins í heild varðandi áhættu sem hefði svipuð áhrif hvar sem er á svæðinu ef hættuástand skapaðist af hennar völdum.