Máli þrotabús Milestone gegn Karli Wernerssyni var í dag vísað frá dómi þar sem talið var að frestir til málshöfðunar, samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti og einkahlutafélög, væru liðnir. Var þrotabúinu gert að greiða Karli 600 þúsund í málskostnað.
Fór þrotabúið fram á að rift yrði með dómi greiðslum Milestone til Karls samtals að fjárhæð 504.244.324 krónur. Fékk Karl fjárhæðina greidda á tímabilinu 24. september 2007 til 18. febrúar 2009.
Milestone ehf. var stofnað í mars 1988 og hét þá Deiglan-Áman. Í upphafi ársins 2004 var félagið sameinað Apóteki Austurbæjar ehf., Vesturbæjarapóteki ehf. og Ísrann ehf. Nafninu var í kjölfarið breytt í Milestone. Umsvif félagsins jukust mikið á árunum 2005-2007. Félagið átti m.a. stóra hluti í Glitni banka hf., Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Lyfjum og heilsu, auk þess sem félagið keypti á fyrri hluta ársins 2007 sænska félagið Moderna Finance AB.
Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 18. september 2009. Kröfulýsingarfrestur í búið rann út 23. nóvember sama ár.
Karl Wernersson var stjórnarformaður og stærsti hluthafi Milestone ehf. á árunum 2005-2009, bæði sjálfur og gegnum félög í hans eigu.
Skiptastjóri lét fara fram rannsókn á fjárreiðum þrotabúsins. Rannsóknin var framkvæmd af Ernst & Young. Í skýrslu Ernst & Young kemur fram að Karl fékk á síðustu 24 mánuðum fyrir gjaldþrot Milestone ehf. fjölmörg lán frá félaginu.
Mál þrotabúsins var höfðað með birtingu stefnu hinn 9. nóvember 2010, eða tæpu ári eftir að kröfulýsingarfrestur rann út og var því málinu vísað frá dómi.