Hitastig á landinu fór allt upp í 14 stig á Austurlandi í gær. Er það óvenjulega mikill hiti miðað við árstíma að sögn Björns Sævars Einarssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
„Hlýja loftið tilheyrir öflugri lægð sem er suðvestur af landinu. Hún kemur sunnan úr höfum og er að dæla hlýju lofti til okkar,“ segir Björn. Hlýindum á þessum árstíma fylgir oft hvassviðri en loftið kemur hratt sunnan úr höfum og helst því hlýtt.
Í dag á að lægja smám saman og vera komið hið sæmilegasta veður seinnipartinn. „Það verður ekki neitt sérlega hvasst næstu daga; suðaustlæg átt og rigning á köflum og frekar hlýtt miðað við árstíma,“ spáir Björn og bætir við að það verði samt svalara en var í gær.