Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra átti síðdegis fund með forsætisráðherra Belgíu, Yves Leterme. Rætt var um efnahagsmál, meðal annars stöðu Íslands og Belgíu eftir efnahagserfiðleikana sem verið hafa á alþjóðavettvangi.
Einnig var rætt um aðildarferli Íslands og stöðu í viðræðum við Evrópusambandið og þakkaði forsætisráðherra sérstaklega fyrir stuðning Belgíu á formennskutíma þeirra fyrri hluta ársins 2010 þegar Evrópusambandið tók ákvörðun um að opna formlega viðræður við Ísland, segir í tilkynningu.
Fyrir liggur að ný stjórn taki við í Belgíu fyrir lok árs og lýsti núverandi forsætisráðherra ánægju með að geta átt áframhaldandi samstarf við Ísland í næsta starfi sínu en hann tekur við stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra OECD við lok ársins.