„Hvað þarf til að Samfylkingin viðurkenni að ESB og evran séu að sigla sinn erfiðasta sjó sem gæti vel endað með broti,“ spyr Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni í kvöld.
Tilefnið eru ummæli Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, í umræðum á Alþingis þess efnis að evran ætti eftir að koma sterkari en áður út úr þeim erfiðleikum sem hún stendur frammi fyrir.
Vitnar Sigurður til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis þar sem haft er eftir Össuri að hann hefði ekki mikið vit á efnahagsmálum. Spyr Sigurður hvort málflutningur Össurar sé trúverðugur í því ljósi.
„Nei það gengur ekki að minnihlutahópur landsmanna geti haldið þessari ESB og evru dýrkun endalaust til streitu á kostnað lands og þjóðar!“ segir hann að lokum á Facebook-síðu sinni.
Facebook-síða Sigurðar Inga Jóhannssonar