„Sporin hræða“

Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum. Reuters

„Það er rétt hjá háttvirtum þingmanni [Kristjáni Möller] að sporin hræða. Við þekkjum ýmsa loftkastalasmiði frá fyrri árum,“ sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra spurður hvenær væri von á svari ráðuneytisins um hvort Huang Nubo verði veitt undanþága eður ei til kaupa á Grímsstöðum á Fjöllum.

„Ég hélt nú að Íslendingar vildu stíga varlega til jarðar þegar menn með dollara í augunum eða mikla fjármuni á milli handa, meinta, eru hér á sveimi. Við tökum þann tíma sem við þurfum,“ segir Ögmundur í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag.

Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, var fyrirspyrjandi og vildi vita hvers vegna ráðuneytið væri ekki búið að svara erindi Nubos. Hann spurði m.a. hvort það væri ástæða til að halda að svar ráðherrans yrði neikvætt.

„Hvenær hyggst ráðuneytið svara erindinu um undanþágu og er einhver ástæða til að halda að það svar yrði neikvætt. Vegna þess að mér hefur fundist koma fram í svörum hæstvirts ráðherra í fjölmiðlum um þetta, að hann væri mjög neikvæður fyrir þessu máli,“ sagði Kristján.

Ögmundur segir að erindi Nubos sé til meðferðar í ráðuneytinu. „Hér er um stórt mál að ræða og það verður vandað til úrskurðarins, sem vonandi liggur fyrir fljótlega,“ sagði Ögmundur.

Kristján segir að margir styðji þessi kaup. „Eins og menn segja á þessu svæði: „Nú er komið þetta eitthvað annað“ sem hefur verið talað um í svo langan tíma,“ sagði Kristján.

Þá sagði Kristján að ef um einstakling af evrópska efnahagssvæðinu væri að ræða þá væri málið klárt. „Hér eru miklar tekjur á ferðinni sem myndu koma sem nýsköpun og tekjur til uppbyggingar, m.a. vinnu í vetur við hönnun og undirbúning. Og veitir okkur nokkuð af því að fá þessar tekjur,“ spurði Kristján ennfremur.

Ögmundur segist ekki hafa séð nein áform sem gefa til kynna sérstakt tekjuflæði í ríkissjóð vegna óska Nubo. „Það eru deildar meiningar um þetta mál mjög,“ sagði Ögmundur.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. mbl.is/Ernir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka