Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að veittar verði 1.230 milljónir kr. á fjáraukalögum vegna fyrirhugaðra kaupa ríkisins á landi og jarðhitaauðlind Kalmanstjarnar og Junkaragerðis á Reykjanesi.
Fram kemur í greinargerð með tillögunni að landið og auðlindin eru nú nýtt til raforkuframleiðslu Reykjanesvirkjunar sem er í eigu HS Orku hf.
„Íslenska ríkið á fyrir um helming þeirra orkuauðlinda sem virkjunin nýtir vegna eignarhalds á ríkisjörðinni Stað á Reykjanesi. Með kaupum á Kalmanstjörn og Junkaragerði verður jarðhitaauðlind sem nýtt er af virkjuninni öll í eigu ríkisins, sem hefur mikið hagræði í för með sér, enda munu nýtingargjöld þá öll renna til ríkisins án flókinnar skiptingar milli eigenda auðlindarinnar,“ segir í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar vegna fjáraukalagafrumvarps fyrir árið 2011.
Þar kemur einnig fram að eigandi landsins og auðlindarinnar nú er sveitarfélagið Reykjanesbær. Kaupverðið greiðist að hluta með skuldajöfnun á tæplega 900 milljóna kr. skuld bæjarins við innheimtumann ríkissjóðs vegna fjármagnstekjuskatts sem lagður var á sveitarfélagið vegna tekna ársins 2009. Gert er ráð fyrir að afgangurinn verði greiddur með beinu framlagi úr ríkissjóði.