Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag að hann hefði beðið Vegagerðina að skoða alla mögulegar leiðir sem rætt hafi verið til þess að leggja láglendisveg um Gufudalssveit á sunnanverðum Vestfjörðum fyrir utan svonefnda leið B. Umrædd leið liggur frá Þórisstöðum í Þorskafirði, út Þorskafjörð vestanverðan, um Hallsteinsnes, yfir mynni Djúpafjarðar, yfir Grónes, yfir mynni Gufufjarðar, upp á Melanes og vestur fyrir Kraká.
Ráðherrann var með svari sínu að bregðast við fyrirspurn frá Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur, varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún spurði hvort hann hefði í hyggju að beita sér fyrir lausn á málinu. Lagði Eyrún áherslu á sveitarfélögin á umræddum svæðum væru þau einu á landinu þar sem íbúarnir þyrftu að aka um óbundið slitlag til þess að komast til og frá þeim.
Fjölmargir þingmenn kváðu sér hljóðs í umræðunni og kölluðu eftir lausn í málinu og lögðu áherslu á að farin yrði leið B í þeim efnum. Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að sú leið væri eina leiðin til lausnar á málinu. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að ef leið B yrði ekki farin yrði að finna einhverja aðra lausn á málinu jafnvel þó hún yrði dýrari.
Einar Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að ekki væri hægt að bjóða íbúum Vestfjarða lengur upp á þær vegasamgöngur sem til staðar væru á svæðinu.
Ögmundur tók síðan aftur til máls og sagði að leið B væri út úr kortinu og sem og hálsaleiðin svo nefnd, það er fjallavegur yfir hálsana á sunnanverðum Vestfjörðum.