Samþykkir ekki fjárheimild nema forsendur haldi

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, er ekki tilbúin til að samþykkja fjárheimildir vegna Vaðlaheiðarganga fyrr en hún hefur sannfærst um að þær forsendur haldi að göngin standi undir sér sjálf.

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis samþykkti í dag að leggja til í fjáraukalagafrumvarpi að fjármálaráðherra fái eins milljarðs kr. lántökuheimild vegna lánveitingar ríkisins til Vaðlaheiðarganga hf.

„Mér finnst vissulega gott að sjá þennan fyrirvara sem formaður fjárlaganefndar skýrði frá í fréttum í kvöld,“ segir Guðfríður. Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar segir að sú forsenda standi óbreytt að gerð Vaðlaheiðarganga eigi að standa undir sér og að áður en stofnað er til skuldbindinga ríkisins komi málið aftur til fjárlaganefndar og verði kynnt henni með fullnægjandi hætti.

„Fólk verður að hafa í huga að grunnforsendan fyrir því að þessi framkvæmd hefur verið tekið út úr hinu eðlilega ferli samgönguáætlunar og sett á undan öðrum verkefnum, sem talin hafa verið mun brýnni, var sú að þetta yrði sjálfafla verkefni, sem stæði alfarið undir sér sjálft.

Það hafa vaknað réttmætar spurningar um hvort að sú sé raunin. Ég er fyrir mitt leyti ekki tilbúin til að samþykkja fjárheimildir fyrr en að ég hef sannfærst um að þessar grunnforsendur standist,“ segir hún.

Samþykkt var í umhverfis- og samgöngunefnd í morgun að óska eftir að Ríkisendurskoðun færi yfir forsendur framkvæmdarinnar og gæfi nefndinni sitt álit.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert