Fréttaskýring: Fylgi flokkanna nú svipað og fyrir hrun

Þingkosningar eiga að fara fram í síðasta lagi vorið 2013.
Þingkosningar eiga að fara fram í síðasta lagi vorið 2013. mbl.is/Ómar

Fari kosningar fram í dag verða úrslitin mjög lík niðurstöðu þingkosninganna sem fram fóru 2007 nema hvað Samfylkingin mælist með 5% minna fylgi og Framsóknarflokkurinn með 4% meira fylgi. Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup er fylgi Sjálfstæðisflokksins og VG það sama og það var vorið 2007. Samkvæmt könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn aftur kominn í lykilstöðu. Ekki er hægt að mynda tveggja flokka stjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokksins.

Gallup birtir tölur um fylgi flokkanna mánaðarlega. Fylgi flokkanna hefur mjög lítið breyst síðustu mánuðina. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur t.d. mælst 36% fjóra mánuði í röð. Flokkurinn fékk sína verstu kosningu frá upphafi í síðustu kosningum eða 23,7% fylgi. Í júlí í fyrra var fylgi flokksins komið upp í 35% og hefur síðan mælst frá 36-37%. Flokkurinn fékk 36,6% í kosningunum 2007.

Fylgi Samfylkingarinnar fór að dala á árinu 2010, en hefur á þessu ári mælst á bilinu 21-23%. Flokkurinn fékk 29,8% í síðustu kosningum og 26,8% í kosningunum 2007.

Fylgi Framsóknarflokks hefur sveiflast það sem af er kjörtímabilinu en hefur mælst með 13-18% fylgi á þessu ári. Hann hefur í fimm af síðustu sex mælingum mælst með meira fylgi en VG.

Fylgi VG dalaði eftir síðustu kosningar en jókst aftur í ársbyrjun 2010. Síðan hefur leiðin legið niður á við og flokkurinn mælist nú með tæplega 15% fylgi. Hann fékk 14,3% fylgi í kosningunum 2007 og 21,7% í kosningunum 2009.

Sjálfstæðisflokkur myndi bæta við sig 11 mönnum

Hafa ber í huga að þessi mynd gæti breyst mikið þegar fer að skýrast með ný framboð, en Guðmundur Steingrímsson og Besti flokkurinn hafa boðað stofnun nýs flokks og Lilja Mósesdóttir segist ennfremur vera að vinna að stofnun nýs flokks. Það verður einnig að hafa í huga að 14% í könnun Gallup neita að svara og rösklega 15% segjast ætla að skila auðu. Þessar tölur benda til að hluti kjósenda sé óánægður og finni ekki þörf hjá sér til að lýsa stuðningi við þá valkosti sem nú eru í boði.

Síðasta könnun Gallup var mjög stór en 8.257 voru í úrtakinu og svöruðu 5.078. Gallup birti skiptingu milli kjördæma, en hafa verður í huga að vikmörk eru hærri þegar búið er að brjóta úrtakið niður milli kjördæma. Samkvæmt könnuninni fengi Sjálfstæðisflokkur 27 þingmenn, Samfylkingin 15, Framsókn 11 og VG 10. Aðrir flokkar kæmu ekki mönnum á þing.

Samkvæmt könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn með mjög sterka stöðu í SV-kjördæmi, kjördæmi Bjarna Benediktssonar formanns, og fengi átta þingmenn, bætir við sig fjórum. Hafa ber í huga að einn þingmaður mun flytjast til SV-kjördæmis í næstu kosningum frá NV-kjördæmi. Flokkurinn er einnig með sterka stöðu í S-kjördæmi og bætti þar við sig tveimur þingmönnum og fengi fimm. Sjálfstæðisflokkurinn myndi bæta við sig mönnum í öllum kjördæmum nema NV-kjördæmi.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, er einnig með mjög sterka stöðu í sínu kjördæmi og heldur sínum þremur þingmönnum þrátt fyrir að tapa nokkru fylgi. Samkvæmt könnuninni myndu hins vegar Ögmundur Jónasson, Álfheiður Ingadóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir detta út af þingi.

Framsókn myndi vinna mann í NV-kjördæmi og NA-kjördæmi. Samkvæmt tölum Gallup næði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, ekki kjöri. Það sama ætti við um Róbert Marshall, Lúðvík Geirsson, Sigmund Erni Rúnarsson og Jónínu Rós Guðmundsdóttur.

Ítrekað skal að fyrirvara verður að hafa á þessari niðurstöðu. Ef t.d. nýr flokkur næði fjórum mönnum á þing fengi Sjálfstæðisflokkurinn ekki 27 þingmenn heldur 25.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert