Endurbygging Þorláksbúðar við Skálholtskirkju stendur nú yfir en í gærkvöldi var unnið að því að reisa grind hússins. „Við vinnum verkið á kristilegan og góðan hátt,“ segir Árni Johnsen, þingmaður og formaður Þorláksbúðarfélagsins, í samtali við mbl.is.
„Við erum með þetta hús fullbyggt. Nú er bara að setja það saman,“ segir Árni og bætir við að ákveðnir hlutar hússins verði settir upp næstu daga ef veður leyfir. Úrvalsmenn hafi verið fengnir til verksins.
Ekki eru allir á eitt sáttir um framkvæmdina, sem hófst vorið 2010. Fram hefur komið að Húsafriðunarnefnd leggist gegn því að Þorláksbúð verði byggð við hlið Skálholtskirkju. Sömuleiðis handhafar höfundarréttar Harðar Bjarnasonar, arkitekts Skálholtskirkju.
Kirkjuráð hefur hins vegar ekki gert athugasemdir við að Þorláksbúðarfélagið ljúki endurbyggingunni. Þá kom fram í Morgunblaðinu í gær að byggingarfulltrúi í uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi hefði gefið út byggingaleyfi sl. föstudag.
Árni segir í samtali við mbl.is að búið sé að afgreiða málið og nú sé verið að vinna samkvæmt lögum og reglum. „Við höfum hlýtt öllum ábendingum og óskum réttra yfirvalda. Svo vinnum við samkvæmt niðurstöðu þeirra,“ segir Árni.
Húsafriðunarnefnd fundaði um framkvæmdirnar við Þorláksbúð í gær. Núna kl. 10 fór nefndin á fund mennta- og menningarmálaráðherra þar sem samþykkt kirkjuráðs verður rædd.