„Sá lærdómur sem vert er að draga af sögu landsins frá fullveldi er hve hættulegt það er að lokast frá umheiminum [...],“ segir á ítarlegu minnisblaði sem efnahags- og viðskiptaráðherra sendi í dag innanríkisráðherra vegna kaupa kínversks fjárfestis á hluta Grímsstaða á Fjöllum.
Í frétt á vefsíðu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins segir að þar sem Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra fer með málefni erlendrar fjárfestingar hafi hann áður kynnt í ríkisstjórn að hann myndi koma á framfæri sjónarmiðum ráðuneytisins við innanríkisráðherra, áður en afstaða yrði tekin til erindisins um kaupin á Grímsstöðum á Fjöllum.
Á minnisblaði Árna Páls segir að við mat innanríkisráðherra á því hvort veita beri undanþágu og heimila fjárfestingu kínverska fjárfestisins hér á landi verði ekki komist hjá því að draga þá ályktun að við slíka ákvörðun beri að horfa til þess að stjórnvöld hafa undirgengist samninga þar sem hvatt er til fjárfestinga milli ríkjanna tveggja.
Bent er á að í minnisblaði innanríkisráðherra 2. september sl. hafi komið fram að í langflestum tilfellum hafi umsóknir erlendra aðila um sambærilegar undanþágur verið samþykktar. „Sú staðreynd skapar lögmæta væntingu um samþykki og gerir því þá kröfu til innanríkisráðuneytisins að það rökstyðji sérstaklega þau efnislegu rök sem kunni að vera fyrir hendi ef synjun kemur til álita af hálfu ráðuneytisins, enda gildir jafnræðisregla stjórnsýslulaga jafnt gagnvart erlendum borgurum sem innlendum,“ segir í minnisblaðinu.
Sjá á vef efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.