Jarðhitarannsóknir í Karíbahafi

Borholumælingabíll hífður um borð í Skaftafell.
Borholumælingabíll hífður um borð í Skaftafell. Ljósmynd Jarðboranir

ÍSOR sendi í fyrsta sinn sérútbúinn mælingabíl til borholumælinga og færanlega rannsóknarstofu úr landi nú um síðustu helgi.

Um næstu mánaðamót er áætlað að hefja rannsóknarboranir eftir jarðhita á eyjunni Dóminíku í Karíbahafi. Gert er ráð fyrir að boraðar verði þrjár 1000–1200 m djúpar holur. Tvö íslensk fyrirtæki gerðu samning við þarlend stjórnvöld fyrr á árinu um framkvæmdirnar. Jarðboranir  munu sjá um borunina.

ÍSOR mun sinna umhverfiseftirliti, jarðfræðiráðgjöf í tengslum við borunina og borholumælingum. Þá munu sérfræðingar ÍSOR einnig meta afköst holnanna og rannsaka efnafræðilega eiginleika jarðhitavökva og gufu í þeim, segir á vef ÍSOR.

Sérútbúinn mælingabíll frá ÍSOR, sem notaður verður við borholumælingar, og færanleg rannsóknarstofa hefur verið send með skipi til Dóminíku. Þetta er í fyrsta sinn sem ÍSOR sendir slíkan búnað úr landi. Jarðborinn Sleipnir, í eigu Jarðborana, var einnig um borð ásamt ýmsum tækjabúnaði.

Umhverfiseftirlit varðandi borframkvæmdirnar hefst nú í nóvember. Þá mun sérfræðingur frá ÍSOR taka sýni í nágrenni fyrirhugaðra borholna með það fyrir augum að safna grunnupplýsingum sem hægt er að bera saman við sýni sem tekin verða á meðan á verkinu stendur og um nokkurra mánaða skeið eftir að því lýkur.

Á Karíbahafseyjunum hefur jarðhiti verið rannsakaður talsvert. ÍSOR hefur m.a. veitt stjórnvöldum á Gvadelúpeyjum, Dóminíku og Nevis ráðgjafarþjónustu. Franska jarðfræðistofnunin BRGM hefur rannsakað jarðhitamöguleika á Dóminíku en sú eyja er talin búa yfir mestum jarðhitaforða og þótti heppilegast að hefja rannsóknarboranir þar.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert