Nú stefnir í að tap á þessu fyrsta rekstrarári tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu verði töluvert minna en gert var ráð fyrir. Jákvæð rekstrarniðurstaða veltur þó á að úrskurður í kærumáli vegna fasteignamats á húsinu falli Hörpu í vil.
Gert var ráð fyrir að 249 milljóna króna tap yrði á rekstri Hörpu á þessu ári. Nú stefnir í að það verði minna en áætlað var eða um 160 milljónir, jafnvel minna. Á næsta ári sé gert ráð fyrir hagnaði, þ.e. fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði, en um 7 milljóna króna tapi að teknu tilliti til þessara liða. Árið 2013 verði síðan um 20 milljóna hagnaður.
Í umfjöllun um fjármál Hörpu í Morgunblaðinu í dag segir, að þessi hóflegi hagnaður verði þó fljótur að fjúka út um gluggann ef Harpa tapar kærumáli gegn Þjóðskrá vegna fasteignamats á húsinu. Í áætlunum Hörpu var gert ráð fyrir að fasteignagjöld yrðu 160 milljónir á ári en miðað við úrskurð Þjóðskrár, sem metur húsið á 27,7 milljarða í samræmi við byggingarkostnað, yrðu gjöldin 290 milljónir.
Leiðrétt:
Í athugasemd frá Þjóðskrá vegna ofangreindrar fréttar kemur fram að núverandi fasteignamat hússins sé 17 milljarðar. Um sé að ræða markaðsleiðrétt kostnaðarmat eins og byggt sé á við mat flestra annarra menningarhúsa á Íslandi. Miðað var við að byggingarkostnaður væri 27 milljarðar. Reiknast matið 19,7 milljarðar (71% af 27,7 milljörðum) miðað við að húsið sé fullbúið, en þar sem nokkur frágangur var eftir þegar matið var gert var það ákvarðað 17 milljarðar.