Ellefu þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram beiðni á Alþingi um að fjármálaráðherra flytji þinginu skýrslu um áhrif þess að skattkerfið verði einfaldað.
Í skýrslubeiðninni er sérstaklega beðið um að könnuð verði áhrif þess að tekjuskattshlutfall launa verði hið sama og skatthlutfall á hagnað fyrirtækja og fjármagnstekjuskatt. Þá verði við mat á áhrifunum einnig gert ráð fyrir að komið yrði á einu virðisaukaskattsþrepi sem yrði hið sama og skatthlutfall á launatekjur, hagnað fyrirtækja og fjármagnstekjur.
Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Guðlaugur Þór Þórðarson. Í greinargerð segir, að æskilegt sé að skattkerfi séu eins einföld og skilvirk og mögulegt er. Slíkt auki gagnsæi og dragi úr líkum á skattundanskotum. Reglulega hafi komið fram hugmyndir um einfaldara skattkerfi, t.a.m. með einu skattþrepi á einstaklinga, lögaðila og fjármagnstekjur.