Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í umræðum á Alþingi í dag fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, hefði farið með rangt mál í þinginu á dögunum þegar hann sagði að skattsvik hefðu ekki aukist á undanförnum árum. Féllu þau ummæli hans í umræðum um nýlega skýrslu þar sem fram kom að 13% starfsmanna lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á landi hefðu stundað svarta atvinnustarfsemi.
Sagði Vigdís að skýrsla um skattsvik sem Steingrímur hefði vísað í til samanburðar og gerð var 2004 hefði ekki byggt á sjálfstæðri rannsókn heldur hefðu samkvæmt skýrslunni einungis verið dregnar ályktanir í henni út frá stöðu mála í Svíþjóð og Danmörku.
Vigdís var að bregðast við fyrirspurn frá Lilju Mósesdóttur, alþingismanni, sem spurði hana hvort hún teldi að háir skattar leiddu til aukinna skattsvika. Það kæmi ekki heim og saman við stöðu mála erlendis. Vigdís sagðist í svari sínu telja að bæði háir skattar og flókið skattkerfi leiddi til þess að reynt væri í auknum mæli að komast hjá því að greiða skatta.