Vatnsútflutningur frá Íslandi hefur aukist verulega síðustu ár en fyrstu sjö mánuði ársins var aukningin rúmlega 31% miðað við sama tímabil í fyrra.
Útlit er fyrir að útflutningurinn í ár verði yfir 16 þúsund tonn, sem er fjórfalt meira magn en flutt var út árið 2007, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Hátt í 86% af vatninu eru flutt til Bandaríkjanna og fer vatnið bæði til austur- og vesturstrandarinnar. Til Kanada, Danmerkur, Kína, Rússlands og Bretlands fara um 12%.
Tvö fyrirtæki eru stærst í vatnsútflutningi, Iceland Water Holding og Catco. Vatninu er tappað á flöskur hér á landi og síðan flutt til útlanda í 40 feta gámum. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa nokkrir aðilar byrjað tilraunasendingar á að flytja vatn í 20 feta gámum, sem eru útbúnir með sérstökum risapoka sem vatni er dælt í, og senda til átöppunar utan Íslands.