Bæjarfulltrúar sýknaðir í meiðyrðamáli

Frá bæjarstjórnarfundi í Kópavogi.
Frá bæjarstjórnarfundi í Kópavogi. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness um að sýkna beri þrjá bæjarfulltrúa í Kópavogi í meiðyrðamáli, sem forsvarsmenn fyrirtækisins Frjáls miðlun höfðaði.

Málið var höfðað vegna greinar, sem þau Guðríður Arnardóttir, Hafsteinn Karlsson og Ólafur Þór Gunnarsson skrifuðu í Morgunblaðið í júní 2009 og ummæla sem Guðríður lét falla í viðtali við Fréttablaðið í sama mánuði.  

Þau Brynhildur Gunnarsdóttir og Guðjón Gísli Guðmundsson, forsvarsmenn Frjálsrar miðlunar, kröfðust þess að eftirfarandi ummæli í grein þremenninganna yrðu dæmd dauð og ómerk: „Fyrirtækið Frjáls miðlun hefur fengið greitt fyrir óunnin og/eða hálfkláruð verk og skýrar vísbendingar um að fyrirtækið hafi fengið greitt oftar en einu sinni fyrir sama verk.“ 

Hæstiréttur segir hins vegar í niðurstöðu sinni, að telja verði að nægilegt tilefni hafi verið fyrir bæjarfulltrúana að viðhafa þau ummæli sem krafist sé ómerkingar á og að þau hafi ekki gengið nær forsvarsmönnum Frjálsrar miðlunar en efni stóðu til. 

Afmælisrit og götukort

Viðskipti Frjálsrar miðlunar og Kópavogsbæjar voru mikið til umfjöllunar á fyrri hluta ársins 2009 og var Deloitte hf. m.a. falið að gera greinargerð um viðskipti bæjarins við fyrirtækið á árunum 2003 til 2008.

Hæstiréttur vísar m.a. til þess að í greinargerð Deloitte hafi gagnrýni í tveimur atriðum lotið að því að verkum þeim, sem Frjálsri miðlun var greitt fyrir, hafi ekki verið lokið og óljóst sé hvort bærinn hafi fengið eitthvað fyrir vinnu þá sem félaginu var greitt fyrir. Sé þar annars vegar um að ræða afmælisrit og hins vegar gagnvirkt götukort.

„Ljóst er að afmælisritið kom aldrei út og ekkert gagnvirkt götukort var gefið út á grundvelli vinnu áfrýjenda," segir m.a. í dómi Hæstaréttar.  „Af skýrslum starfsmanna Kópavogsbæjar fyrir héraðsdómi verður ráðið að það hvernig fór sé af ástæðum sem ekki varði áfrýjendur. Þar sem ekki liggja fyrir í málinu verksamningar, verkbeiðnir eða verklýsingar varðandi þessi verkefni er hins vegar ekki unnt að leggja dóm á það á grundvelli framlagðra gagna hvort áfrýjandinn Frjáls miðlun ehf. hafi lokið umbeðnum verkþáttum."

Sérstakt aðhalds- og eftirlitshlutverk

Hæstiréttur segir í dómi sínum að umfjöllun um ætlaðar misfellur í stjórnsýslu Kópavogsbæjar í tilefni af skýrslu skrifstofustjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs bæjarins og greinargerð Deloitte hafi varðað opinber málefni og því átt fullt erindi til almennings. Þremenningarnir hafi verið kjörnir bæjarfulltrúar í Kópavogi og haft sem slíkir sérstakt aðhalds- og eftirlitshlutverk.

„Eru sterk þjóðfélagsleg rök til þess að svigrúm þeirra til að rækja það hlutverk verði ekki takmarkað umfram það sem brýnir lögvarðir hagsmunir annarra krefjast. Í opinberri umfjöllun um stjórnsýsluframkvæmd Kópavogsbæjar er laut að viðskiptum bæjarins við Frjálsa miðlun ehf. var óhjákvæmilegt að í umræðum um ónógt aðhald og eftirlit af hálfu bæjarins með þeim viðskiptum væri í einhverjum mæli fjallað um félagið og reikningsgerð af þess hálfu," segir m.a. í dómnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert