Gæsluvarðhald staðfest

mbl.is/Júlíus

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður, sem er grunaður um að hafa skipulagt innflutning á fíkniefnum til landsins, sæti áfram gæsluvarðhaldi til 6. desember.

Meðal þeirra fíkniefna, sem sterkur grunur leikur á að maðurinn hafi skipulagt innflutning á, eru  9.908,06 g af amfetamíni og 8.100 töflur af ecstasy.

Lögreglan hefur nú málið til rannsóknar. Efnin fundust 10. október sl. en þau voru flutt til landsins með skipi frá Hollandi. Þau voru vel falin í vörugámi á vegum fyrirtækis sem maðurinn var starfsmaður hjá.

Fram kom í úrskurði héraðsdóms að maðurinn hefði játað aðild sína að innflutningum við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann kvaðst þó ekki hafa vitað að um fíkniefni væri að ræða, heldur talið að þetta væru sterar.

Maðurinn sagði sitt hlutverk hafa verið að fara út til Amsterdam og hitta þar aðila sem afhenti honum kassa með efnunum. Hann hafi beðið aðila úti að koma efnunum fyrir í gámnum á vegum fyrirtækisins. Hafi maðurinn sagst hafa ætlað að taka sjálfur á móti kössunum hér á landi og geyma þá þar til þeir yrðu sóttir.

Maðurinn heldur því fram að annar maður hafi fengið sig til verksins. Sá aðili hafi verið staddur á Spáni er fíkniefnin hafi komið til landsins en hafi verið handtekinn er hann hafi komið til landsins 30. október sl. og sæti nú gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins. Sá maður neitar sök.

Rannsókn lögreglu miðar áfram en lögreglan segir að um sé að ræða umfangsmikið og vel skipulagt fíkniefnamál þar sem mikið magn af sterkum fíkniefnum hafi verið flutt hingað til lands. Unnið sé að rannsókn málsins í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert