Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi og formaður bæjarráðs, segir dóm Hæstaréttar mikinn létti en hún, Hafsteinn Karlsson og Ólafur Þór Gunnarsson voru í dag sýknuð í meiðyrðamáli sem forsvarsmenn fyrirtækisins Frjálsrar miðlunar höfðuðu vegna opinberra ummæla þremenninganna um viðskipti fyrirtækisins við Kópavogsbæ.
„Þetta er fyrst og fremst léttir. Auðvitað bjuggumst við þessu allan tímann en það er ekki skemmtileg lífreynsla að þurfa að verjast fyrir dómstólum og sérstaklega ekki þegar maður hefur þá sannfæringu að maður hafi verið að sinna skyldu sinni eins og Hæstiréttur staðfesti í dag. Hann er mjög afdráttarlaus,“ segir hún.
Í dómnum segir meðal annars:
„Umfjöllun um ætlaðar misfellur í stjórnsýslu Kópavogsbæjar í tilefni af framangreindri skýrslu og greinargerð varðaði opinber málefni og átti þar með fullt erindi til almennings. Stefndu voru kjörnir bæjarfulltrúar í Kópavogi og höfðu sem slíkir sérstakt aðhalds- og eftirlitshlutverk. Eru sterk þjóðfélagsleg rök til þess að svigrúm þeirra til að rækja það hlutverk verði ekki takmarkað umfram það sem brýnir lögvarðir hagsmunir annarra krefjast.“
„Ég les Hæstaréttardóminn þannig að okkur beri ríkari skylda til þess að tjá okkur í málum sem þessum, vegna þess að við erum kjörnir fulltrúar og þetta er okkar hlutverk. Og það finnst mér mjög mikilvægt að fá staðfest. Við glöddumst nú ekki þegar stefnendur tóku þá ákvörðun að áfrýja dómi héraðsdóms en eftir á að hyggja er ávinningurinn af því ferli þó sá, að það liggur núna fyrir Hæstaréttardómur sem er mjög skýr varðandi þá skyldu sem liggur á kjörnum fulltrúum um að halda uppi málefnalegri gagnrýni á stjórnsýsluna,“ segir Guðríður.
Hún segir málinu lokið og aðrar vinnureglur séu nú við lýði í Kópavogi.
„Við gagnrýndum viðskipti sem við töldum óeðlileg og endurskoðunarskrifstofan Deloitte tók út þessi viðskipti og benti á fjölmörg atriði sem voru sérkennileg. En nú er nýr meirihluti tekinn við í Kópavogi og það er auðvitað þannig núna að þegar okkur vantar einhverja þjónustu þá er það bara boðið út eða leitað verðtilboða. Það er ekki unnið þannig að það sé bara verslað við einhverja tiltekna aðila án þess að það sé boðið út,“ segir hún.