Lánaniðurfærslan 172,6 milljarðar

Um 1.400 heimili höfðu sótt um sértæka skuldaaðlögun í lok …
Um 1.400 heimili höfðu sótt um sértæka skuldaaðlögun í lok september. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lán heimila höfðu í lok september verið færð niður um 172,6 milljarða króna frá efnahagshruni. Til samanburðar nam niðurfærslan tæpum 144 milljörðum króna í lok júlímánaðar. Þetta kemur fram í samantekt Samtaka fjármálafyrirtækja.

Í september nam niðurfærsla fasteignalána rúmum níu milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum sem Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa aflað meðal aðildarfélaga sinna, hjá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum.

Niðurfærsla fasteignalána í mánuðinum nam 4,5 milljörðum króna vegna 110% leiðarinnar, um 4 milljörðum króna vegna endurútreiknings og hálfur milljarður króna er til kominn vegna sértækrar skuldaaðlögunar.

Til viðbótar þeirri niðurfærslu sem rakin er hér að ofan, hafa einstök fjármálafyrirtæki boðið upp á önnur úrræði sem lækkað hafa eftirstöðvar skulda viðskiptavina þeirra.

16 þúsund umsóknir um 110% leiðina

Í lok september lá fyrir að heildarfjöldi umsókna um 110% leiðina var ríflega 16 þúsund, til banka Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóða. Þar af voru um 1.500 mál afgreidd fyrir 1. desember 2010 á grundvelli hliðstæðs úrræðis sem einstök fjármálafyrirtæki buðu.

Niðurfærsla samkvæmt 110% leiðinni nam um 4,5 milljörðum króna í september og nemur nú samtals tæpum 31,7 milljörðum króna frá bankahruni. Þann 1. október voru enn ríflega 4.300 mál í vinnslu í 110% leiðinni, langstærstur hluti þeirra hjá ÍLS eða 2.674 mál.

Sjóðurinn hafði samþykkt 1.324 erindi og hafnað 1.634. Niðurfærsla ÍLS vegna þessa úrræðis nam í lok september rúmum 3,6 milljörðum króna. Lífeyrissjóðir höfðu í lok september samþykkt 73 umsóknir og hafnað 238 af 407. Niðurfærsla hjá lífeyrissjóðum vegna 110% leiðar nam í lok september tæpum 200 milljónum króna.

Ljóst er að niðurfærsla á lánum vegna þessa úrræðis á enn eftir að hækka verulega, segir í samantekt SFF.

Endurútreikningi lokið á rúmlega 70 þúsund gengislána

Um 1.400 heimili höfðu sótt um sértæka skuldaaðlögun í lok september. Samþykktar höfðu verið ríflega 750 umsóknir en rúmlega 90 verið hafnað, auk þess sem um 550 mál voru enn í vinnslu. Heildarniðurfærsla vegna þessa úrræðis, miðað við septemberlok, er rúmir 6 milljarðar króna.

Fjármálafyrirtækin hafa lokið endurútreikningi rúmlega 70 þúsund gengistryggðra lána. Þar af eru rúmlega 13 þúsund fasteignalán og rúm 57 þúsund lán vegna bifreiðaviðskipta. Heildarniðurfærsla fasteignaveðlána vegna endurútreiknings var í lok september rúmir 96 milljarðar króna. Lán vegna bifreiðaviðskipta hafa verið færð niður um 38,5 milljarða króna við endurútreikning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert