Lausnin að tala niður allt sem íslenskt er

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

„Aþena er fallin, Róm brennur og París og Berlín vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þessar staðreyndir eru sárar fyrir þá sem vilja að Ísland gangi inn. Örvænting ESB-aðildarsinna er fullkomin,“ segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, á heimasíðu sinni í dag. Hún segir að lausnin við þessu sé talin vera að tala niður Ísland og allt sem íslenskt er.

„Því er ráðist á þá sem telja að hagsmunum Íslands sé best borgið fyrir utan Evrópusambandið. Á þeim dynja ásakanir um þjóðernisöfgar og hatur á útlendingum. Að vera á móti lýðræði og samvinnu,“ segir Eygló og bætir við að eina leiðin til þess að koma Íslendingum inn í ESB sé að „berja inn í þá efasemdir um eigin getu. Efasemdir um hæfni okkar til að vera sjálfstæð þjóð.“

Tilefni skrifa Eyglóar er grein sem Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent við Háskólann á Bifröst, ritaði í Fréttatímann 4. nóvember sl. um þjóðleg gildi og andstöðu við innflytjendur þar sem hann gerði m.a. Framsóknarflokkinn að umfjöllunarefni sínu. Þar sagði Eiríkur:

„Í allra síðustu tíð hefur Framsóknarflokkurinn svo eilítið farið að daðra við þjóðernisstefnuna. Breytingar á merki flokksins vísa til að mynda í klassísk fasísk minni og áhersla hefur verið á að sýna þjóðleg gildi á fundum flokksins, svo sem glímusýningu undir blaktandi þjóðfánanum. Orðræða sumra þingmanna hefur í auknum mæli einkennst af hollustu við þjóðernið. Enn þá er þó ekki ljóst hvort flokkurinn ætli sér að sækja enn lengra inn í þetta mengi.“

Þingflokkur framsóknarmanna sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem grein Eiríks var gagnrýnd harðlega. Eiríkur svaraði síðan yfirlýsingunni að sama skapi um miðjan dag í gær þar sem hann segir skilning framsóknarmanna á grein hans rangan.

Heimasíða Eyglóar Harðardóttur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert