Seðlabankinn rannsaki óhreint fé

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Hver eru viðbrögð hæstvirts ráðherra?" spurði Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og vísaði þar til ummæla sem komu fram hjá Þorvaldi Gylfasyni, hagfræðiprófessor, nýverið um að mikið óhreint fé væri í gangi á Íslandi og í íslensku bönkunum. Hafði Þorvaldur það eftir ónafngreindum fyrrum Seðlabankastjóra á Íslandi.

Beindi Einar fyrirspurn sinni til Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, og spurði hvort ekki væri opinber rannsókn í gangi á ummælunum sem yrðu að teljast alvarleg ef sönn reyndust. Með óhreinu fé væri væntanlega verið að skírskota til illa fengins fjár.

Árni Páll tók undir það að ef satt reyndist væri málið alvarlegt en ummæli Þorvaldar væru hins vegar nokkuð óljós. Hann teldi hins vegar að Seðlabankinn hefði eðlilegt eftirlit með því hvort slíkt fé væri í gangi hér á landi. Hann tók hins vegar undir það að rétt væri að rannsaka málið.

„Ég er sammála háttvirtum þingmanni að það er auðvitað augljóst að það verður að fást botn í það hvort um það geti verið að ræða að óhreint fé sé á ferð í landinu. Það er Seðlabanka Íslands að upplýsa um það. Ég vænti þess að Seðlabankinn upplýsi um það ef svo sé,“ sagði Árni Páll.

Tilefni umræðunnar eru eftirfarandi ummæli Þorvaldar Gylfasonar á Facebook-síðu sinni 28. október sl.:

„Fyrrverandi seðlabankastjóri sagði við mig í gær, að ein ástæðan til þess, að bankarnir starfa undir leyndarhjúpi frekar en fyrir opnum tjöldum, sé sú, að mikið sé af óhreinu fé í umferð. Hann var að tala um Ísland. Mig langaði að segja við manninn: Hvers vegna ertu að hvísla þessu að mér? Hvers vegna skrifarðu ekki um þetta í blöðin?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka